Dagdraumar og uppskriftir í láni

Dagdraumar eru stórhættulegir. Ég hef gjarnan verið talin jarðbundin manneskja og töluvert skynsöm en fólk veit ekki hversu fastur heilinn minn er í landi dagdraumanna. Þegar ég á lausan tíma, og þótt ég eigi hann bara alls ekki, læt ég mig dreyma. Ég fer þá inn á hinar ýmsu síður á netinu, skoða myndir eða bara sit og horfi út í loftið. Ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann læknast af þessum endalausu draumum, alveg sama hversu margir þeirra munu rætast. Þegar ég verð komin með góða vinnu, í eigið húsnæði langt frá Vesturbænum, verð búin með skólann og komin í vinnu þar sem maður fær sumarfrí…þegar ég hef heimsótt alla þessa spennandi staði og prófað allt sem mig langar að prófa… eignast maður ekki bara nýja drauma? Jú ég er nokkuð viss um það. Það er spennandi að sjá hverjir þeir draumar verða. Svona þegar ég verð búin að flytja úr Vesturbænum, fá mér te í London, labba á vegginn á milli brautarpalla 9 og 10, sjá mörgæsir og skoða minnisvarða um löngu týnda menningu víða um heiminn.

En sumir draumar eru mun einfaldari og hversdagslegri. Matarblogg og Pinterest, það eru nú aldeilis stórhættulegir staðir! Í gær tók ég góða yfirferð á síðunni Ljúfmeti og lekkerheit. Sú síða fær stóran skammt af meðmælum. Skemmtileg og girnileg síða! Aron hneykslaðist reyndar töluvert á mér þegar ég var rétt búin að gleypa kvöldmatinn og fór að skoða meiri mat. Ekki það að ég hafi verið svöng, það er bara alltaf tími til að skoða uppskriftir. Ég endurtek: alltaf.

Á síðunni fann ég spennandi uppskrift, New York Times brauð. Það sem það var súpa í matinn í kvöld, var upplagt að prófa þetta brauð. Það tekur enga stund að gera deigið en svo þarf það að bíða a.m.k. yfir nótt. Svo ég skellti í eina uppskrift fyrir svefninn í gær. Í dag bakaði ég það svo, í potti inni í ofni! Það tókst glimrandi vel og var frábært með sveppasúpunni. Þetta brauð væri líka fullkomið með bökuðum fetaosti. Ég held að brauð geti ekki fengið betri meðmæli en þegar matvandi Aron segir að þetta sé bara alveg eins og maður fær í bakaríi!

Svo þarf ég að prófa fleiri uppskriftir af síðunni, þessi súpa hljómar dásamlega og ekki væri verra að eiga heimagert hrökkbrauð á morgnanna. Eins og þið sjáið er full ástæða til að kíkja á þessa síðu!

Ritgerðinni minni miðar ágætlega áfram, ég var að ljúka við að afrita fyrsta viðtalið. 10.300 orð, takk fyrir! Svo næ ég vonandi mörgum viðtölum þegar ég fer heim núna í vikunni. Heimferð á miðvikudag og suðurferð er óákveðin. Það er voða góð tilhugsun að ætla að vera í u.þ.b. 10 daga heima, eiginlega bara dásamleg tilhugsun! Þótt mér sé meinilla við Bíladaga, verður frábært að taka þátt í MA hátíðinni. Ég er nefnilega 5 ára stúdent í ár…5 ára! Ég trúi því ekki sjálf, bara alls ekki. En þegar ég tel árin sem ég hef eytt í háskóla, þá einhvern veginn gengur það samt upp. Hún er undarleg, þessi tilvera…

Annars var tilgangurinn með þessari færslu aðallega að benda ykkur á frábæra brauðið sem má aldeilis búast við að klárist á stuttum tíma. Við erum víst bara tvö í heimili, brauðið kom úr ofninum klukkan hálf fimm og það er búið. Vandræðalegt en satt.

En þá er ég farin að fá mér síðasta tebolla dagsins og mögulega smá döðlugott.

 

 

Advertisements
Leave a comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: